Quantcast
Channel: buff uppskrift – Ljúfmeti og lekkerheit
Viewing all articles
Browse latest Browse all 3

Hakkabuff með fetaosti

$
0
0

Hakkbuff með fetaosti

Í gærkvöldi bauð mamma okkur í lambalæri sem hún bar fram með kartöflugratíni og salati. Í eftirrétt hafði hún bakað danska eplaköku sem var, að sjálfsögðu, borin fram með rjóma (því mamma elskar rjóma…. og allt danskt). Ég gæti vel vanist því að vera boðin í svona veislu á hverjum mánudegi og þótti þetta þvílíkur hversdagslúxus. Ég nýtti tækifærið og fékk uppskrift að súkkulaðimúsinni hennar mömmu sem krakkarnir elska og eru alltaf að biðja hana um að gera. Ég ætla að setja hana hingað inn við tækifæri.

Núna ætla ég hins vegar að gefa uppskrift að ljúffengu hakkabuffi. Þessi hakkabuff mega gjarnan vera oftar á disknum mínum því mér þykja þau svo bragðgóð og ljúffeng. Það er eitthvað notalegt við þau og krakkarnir borða buffin alltaf af bestu lyst. Með soðnum kartöflum og sultu verða þau að dýrindismáltíð sem er einfalt að útbúa og allir kunna að meta.

Hakkbuff með fetaosti

Hakkabuff með fetaosti

  • 700 g nautahakk eða blanda af nauta- og svínahakki
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 egg
  • 2 tsk þurrkað oregano
  • 150-200 g mulinn fetaostur
  • salt og pipar
  • smjör til að steikja upp úr

Sósa

  • 2 msk smjör
  • 1/2 dl vatn
  • 3 dl rjómi
  • 2-3 msk kalvfond (eða grænmetisteningur)
  • maizena
  • salt og pipar
  • smá rifsberjahlaup (má sleppa)

Hakkbuff með fetaosti

Blandið hráefninu í buffin vel saman (mér þykir gott að setja allt í hrærivélina) og mótið stór buff úr þeim. Steikið buffin á pönnu upp úr vel af smjöri. Á meðan er ofninn hitaður í 125°. Þegar buffin eru tilbúin eru þau sett í eldfast mót og inn í ofn til að halda þeim heitum.

Steikarsoðið af buffunum er notað í sósuna. Þegar öll buffin hafa verið steikt er væn smjörklípa sett á pönnuna. Bætið vatni og rjóma á pönnuna og smakkið til með kalvfond, salti og pipar. Mér þykir stundum gott að setja smá af rifsberjahlaupi í sósuna en því má sleppa. Að lokum er sósan þykkt með maizena . Leggið buffin í sósuna og látið þau sjóða í sósunni um stund við vægan hita.

Berið buffin fram með soðnum kartöflum og sultu.



Viewing all articles
Browse latest Browse all 3